Edgar Allan Poe

Einhvern veginn er það svo að sumir menn öðlast heimsfrægð og eiga varanlegan stað í hugum og á vörum fólks án þess þó að fólk endilega viti mikil deili á þeim.  Þannig má segja að Edgar Allan Poe hafi lifað meðal kynslóðanna eftir dauða sinn, því flestir þekkja nafn hans og vita að hann var þekktur rithöfundur, en geta jafnvel ekkert meira um hann sagt. 

Það er þó full ástæða fyrir okkur að þekkja vel til Edgars Allans Poes, enda stórmerkur maður sem segja má að hafi brotið blað í skáldsagnaritun. Þótt hann yrði einungis rétt rúmlega fertugur liggur ógrynni verka eftir hann og þá var hann brautryðjandi á fleiri en einu sviði bókmenntanna; hann samdi jöfnum höndum ljóð, smásögur, leikrit, auk þess sem hann var mikilvirkur gagnrýnandi, skrifaði fjölda ritgerða um hin ýmsu mál og starfaði sem ritstjóri. 

Hann var einn helsti boðberi rómantíkur í Bandaríkjunum, en efniviðurinn í verk hans og það hvernig hann meðhöndlaði viðfangsefni sín var mjög fjölbreytilegt svo vægt sé til orða tekið.  Hefur hann enda verið talinn upphafsmaður ýmissa bókmenntastefna, svo sem leynilögreglusögunnar og nútíma sakamálasagna almennt; þá lagði hann á margan hátt línuna við gerð svokallaðra vísindaskáldsagna.  Best  er hann þó eflaust þekktur fyrir dulrænar sögur sínar sem þræða einstigið á milli þess sem er raunverulegt og óraunverulegt.     

Poe lést þegar hann var rétt kominn yfir fertugt og eru menn ekki á eitt sáttir um hvað hafi valdið dauða hans, en í því sambandi hafa menn talað um að óhófleg neysla áfengis hafi haft sitt að segja, eiturlyf, kólera og berklar. 

Poe fæddist í Boston, Massachusetts 19. janúar árið 1809.   Foreldrar hans voru leikarar, Elizabeth Arnold Hopkins Poe og David Poe Jr., og af skoskum og írskum ættum.  Edgar var annað barn þeirra hjóna, en áður áttu þau soninn William Henry Leonard Poe og ári eftir að Edgar fæddist eignuðust þau dótturina Rosalie Poe. 

Um það leyti er Rosalie fæddist yfirgaf faðir Edgars fjölskylduna og ári síðar lést móðir hans úr tæringu.  Edgar var í kjölfarið tekinn í fóstur af vel stæðum tóbakskaupmanni að nafni John Allan, en þaðan kemur nafnið Edgar „Allan“ Poe.  Bætti hann Allan nafninu við í virðingarskyni við þennan mann.

Árið 1815 hélt hann ásamt þessari nýju fjölskyldu sinni til Englands.  Dvaldi hann um hríð í heimavistarskóla í Skotlandi, en sameinaðist fjölskyldunni nokkrum mánuðum síðar.  Þá var hann settur í annan heimavistarskóla í Chelsea og síðar í annan skóla skammt frá London. 

Árið 1920 sneri Poe ásamt Allan-fjölskyldunni aftur til Bandaríkjanna og settust þau að í Richmond í Virginíu.  Fékk hann inngöngu í háskólann í Virginíu árið 1826 og var þar einungis í eitt ár.

Á þessum tíma fellur hann í ónáð hjá fósturföður sínum vegna spilaskulda, sem Poe hafði stofnað til er hann var að reyna að verða sér úti um meira eyðslufé.  Í kjölfarið hélt hann til Boston og kallaði sig Henri Le Rennet.  Í Boston gaf hann út sína fyrstu bók, Tamerlane and Other Poems, sem var ljóðabók.  Er sú bók mjög fágæt í dag, en fyrir nokkru seldist eintak af henni á uppboði fyrir 200.000 dollara.     

Ekki seldist bókin þó svo neinu næmi og þegar hungrið fór að sverfa að gekk Poe í herinn sem óbreyttur hermaður, til þess að hafa í sig og á.  Var hann í hernum í tvö ár og hafði þá náð nokkrum frama og verið hækkaður í tign. 

Að herþjónustunni lokinni hélt Poe árið 1829 til Baltimore, þar sem hann bjó hjá frænku sinni.  Sama ár deyr fósturmóðir Poes, Frances Allan, en síðasta ósk hennar hafði verið að maður sinn sættist við Edgar.  Varð það úr að þeir tóku upp þráðinn þar sem frá var horfið og nú reri faðir hans að því öllum árum að koma Edgar í herforingjaskólann í West Point.  Á þeim tíma gaf Poe út sína aðra bók, Al Aaraaf Tamerlane and Minor Poems (Baltimore 1929). 

Að ráði fósturföður síns hóf Edgar nám við West Point, en samskiptin milli þeirra feðga urðu sífellt stirðari.  Að lokum sleit John Allan öll tengsl við Edgar vegna lífernis hans og Edgar ákvað þá að hætta námi sínu við West Point.  Var það ekki auðsótt mál og á endanum fór mál Edgars fyrir herrétt sem gerði hann brottrækan úr skólanum með skömm. 

Árið 1831 gaf svo Poe út þriðju ljóðabókina í New York, en fálegar viðtökur gerðu það að verkum að hann ákvað að snúa sér að því að skrifa sögur.  Voru nokkrar sögur eftir hann birtar í blöðum og árið 1933 hlaut sagan The Manuscript Found in a Battle, verðlaun hjá blaðinu The Saturday Visitor í Baltimore.  Þetta varð til þess að Poe fékk nú greiðari farveg fyrir sögur sínar í blöðum og tímaritum.  Í kjölfarið kynntist hann Thomas W. White, ritstjóra blaðsins Southern Literary Messenger í Richmond sem bauð honum að gerast aðstoðarritstjóri við blaðið.  Var það árið 1835.  Ekki gekk það samstarf að óskum því eftir nokkra mánuði var Poe rekinn fyrir drykkjuskap.  Poe sneri þá aftur til Baltimore og giftist frænku sinni Virginíu á laun, en hún var þá einungis þrettán ára gömul. 

Eftir að hafa lofað bót og betrun fékk Poe annað tækifæri við Southern Literary Messenger.  Var hann við blaðið fram til ársins 1837, en á þeim tíma jókst fjöldi lesenda úr 700 í 3500.  Poe sjálfur var mjög afkastamikill og skrifaði jöfnum höndum greinar, gagnrýni, ljóð og annað sem til féll.  Í maí árið 1836 endurnýjuðu þau Virginía hjúskaparheit sín og nú fyrir opnum tjöldum. 

Árið 1838 kom út bókin The Narrative of Arthur Gordon Pym og hlaut hún mikla athygli.  Árið eftir gerðist hann aðstoðarritstjóri tímaritsins Burton's Gentleman's Magazine og gaf út smásagnasafnið Tales of the Grotesque and Arabesque.  Þrátt fyrir að sú bók hafi ekki átt velgengni að fagna er hún kom út braut hún blað í sögu amerískra bókmennta.  Þar má finna margar af þekktustu sögum Poes: The Fall of the House of Usher, MS Found in a Bottle o.fl.

Þetta eina ár sem Poe var hjá Burton's jókst hróður hans sem gagnrýnanda og greinaskrifara.  En eins og fyrri daginn hélst ekki lengi við í starfi.  Næsti viðkomstaður hans var sem aðstoðarritstjóri við Graham's Magazine.  

Þremur árum síðar (1842) greindist Virginia kona Poes með berkla á háu stigi.  Náði hún sér aldrei alveg og lifði einungis fimm ár eftir það og við slæma heilsu.  Hvort sem það var af álagi vegna veikinda hennar eða annarra hluta, þá fór Poe að drekka meira upp úr því, þannig að það stóð honum fyrir þrifum. 

Í kjölfarið missti hann stöðuna hjá Graham's Magazine og útlitið var alls ekki bjart fjárhagslega.  Að lokum fékk hann þó ritstjórastöðu við The Broadway Journal.  Þá lenti hann í  illdeilum við hinn kunna rithöfund Henry Wadsworth Longfellow. 

Þann 25. janúar árið 1845 birtist svo ljóðið ,,The Raven'' fyrst á prenti og vakti gríðarlega athygli. 

The Broadway Journal lagði upp laupana árið 1846 og kona hans lést ári síðar og þá má segja að verulega hafi farið að halla undan fyrir Poe.  Hann reyndi þó að stíga í vænginn við aðrar konur en ekkert samband þoldi drykkjuskap hans og sífellt undarlegri hegðunarmynstur. 

Eftir nokkur erfið ár þar sem hann þjáðist af þunglyndi og brálæðisköstum mun hann hafa reynt að taka eigið líf árið 1848.   Þann 3. október árið 1849 fannst hann svo  ráfandi úti á götu í Baltimore með óráði og að því er virtist í miklu uppnámi.  Var farið með hann á sjúkrahús þar sem hann lést fjórum dögum síðar, 7. október.

Eins og áður sagði hafa myndast margar sagnir um hver raunveruleg dánarorsök Poes var.  Eftir að hann komst undir læknishendur náði hann aldrei fullri meðvitund og því fékkst engin skýring á því hvað hann var að gera þarna úti á götu í fötum af einhverjum öðrum.  Nóttina áður en hann dó á hann að hafa kallað upp nafnið Reynolds í sífellu og lokaorð hans segja menn að hafi verið: „Guð vertu vesælli sálu minni náðugur.“

Lífseig en ónákvæm eftirmæli

Daginn sem Poe varð jarðsettur birtist um hann löng minningargrein í New York Tribune og nefndi ritari hennar sig einungis Ludwig.  Greinin hófst á eftirfarandi orðum:  „Edgar Allan Poe er látinn.  Hann lést í Baltimore daginn fyrir gærdag.  Eflaust kemur þessi frétt mörgum á óvart, en þó verða fáir til að sakna hans....“   Greinin var svo tekin upp í mörg blöð út um öll Bandaríkin.  

Seinna kom í ljós að Ludwig þessi var maður að nafni Rufus Wilmot Griswold, minni háttar ritstjóri og bókenntamaður sem taldi sig eiga Poe grátt að gjalda eftir að Poe hafði skrifað dóm um eina bók hans.  Dómurinn hafði þó alls ekki verið slæmur, en Griswold vildi meina að Poe hefði hætt sig í dómnum og verið þar með falskt skjall. 

Það var svo Griswold sem tók að sér að skrifa ævisögu Poes, en þar lýsti hann honum sem siðspilltum, drykkfelldum vitfirringi sem auk þess var djúpt sokkinn í eiturlyfjaneyslu.  Þar sem þetta var eina ævisagan sem til var um Poe í langan tíma (fram til 1875) hélst þessi trú manna lengi og enn í dag virðist sem sú mynd sem Griswold dró upp af honum sé sú lífseigasta, þrátt fyrir að margir aðrir hafi skrifað um hann og á mun jákvæðari hátt.

 

Rithöfundurinn Edgar Allan Poe

Eins og maðurinn Edgar Allan Poe var umdeildur voru verk hans ekki síður umdeild og staða hans innan bókmenntanna er mismunandi eftir því við hvern er rætt.  Um áhrif hans eru þó flestir sammála, enda bryddaði hann upp á mörgum nýjungum sem menn öpuðu eftir honum. 

Sögur hans og ljóð eru full af þráhyggju, og sjálfur vildi hann meina að það væri fyrst og fremst áhrif verkanna sem skildi á milli hvort þau væru góð eða slæm, ekki það að stíllinn og allt væri fullkomið.  Það fannst honum nánast vera aukaatriði; ef höfundur næði að kalla fram sterk áhrif hjá lesandanum væri tilganginum náð. Þetta sagði hann t.a.m. vera hugsunin að baki persónunni Roderick Usher í sögunni The Fall of the House of Usher.  Persónan væri ekki rökleg í venjulegum skilningi, heldur væri hún samin til að kalla fram ákveðin tilfinningaleg viðbrögð. 

Hann var ákafur andstæðingur þess að menn skrifuðu til að koma einhverjum boðskap á framfæri eða að textar ættu að hafa eitthvað fræðslugildi.  Það væri alls ekki tilgangur bókmennta að predika eða fræða.  Menn ættu einungis að skapa list listarinnar vegna.  Var hann óvæginn í gagnrýni sinni á höfunda sem fylgdu þessari stefnu og réðst t.a.m. harkalega á James Russell Lowell í því sambandi. 

Poe sótti töluvert í smiðju Dickens og áttu þeir í bréfasambandi og eins og lög gera ráð fyrir var umræðuefnið bókmenntir.  Koma áhrif frá Dickens t.a.m. vel fram í sögunni The Man of the Crowd

Poe starfaði mikið við blöð og tímarit og vildi meina að smásögur eða „tales“, sem fram að þeim tíma þóttu frekar lítilfjörlegt bókmenntaform væri bókmenntaform 19. aldarinnar og stæðu skáldsögum og ljóðum ekkert að baki.   Hefur því enda verið haldið fram að Poe hafi með sögum sínum og greinum lyft smásögunni upp úr þeim farvegi sem hún var í og gert hana gildandi sem viðurkennt listform. 

Smásögur Poes voru gjarnan þematengdar og þar tók hann gjarnan fyrir eitthvað eitt sem hann einblíndi á sérstaklega; í The Tell-Tale Heart var það sektarkennd, í The Fall of the House of Usher var það óttinn o.s.frv.   Þá notaðist Poe mikið við tákngervingar.

Verk Poes hafa haft mikil áhrif á bandarískar bókmenntir og reyndar heimsbókmenntirnar og hafa áhrif hans náð inn í aðrar listgreinar.  Af bandarískum höfundum sem eru undir beinum áhrifum frá Poe má nefna höfunda eins og Walt Whitman, H.P. Lovecraft, William Faulkner og Herman Melville.

Eins og áður hefur komið fram var Poe einn helsti boðberi rómantískra bókmennta í Bandaríkjunum, þó svo að sögur hans og ljóð séu eins langt frá því að vera rómantískar og hægt er að vera. 

Hann braut síðan blað með gerð sakamálasagna, en segja má að persónan C. Auguste Dupin sem er í aðalhlutverki í þremur sögum, sbr. The Murders in the Rue Morgue og The Purloined Letter, sé nokkurs konar forveri spæjara eins og Sherlock Holmes.  Þá ruddi hann brautina fyrir höfunda dulrænna sagna og vísindaskáldsagna. 

Til marks um áhrif hans í þessum geira þá nefndu Samtök höfunda spennusagna verðlaun sín Edgar-verðlaunin í höfuð á Poe.